Innlent

60 milljóna króna styrkir til doktorsnema

Fimmtán doktorsnemar við Háskóla Íslands hljóta í dag styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags íslands. Heildarupphæð styrkjanna er samtals 60 milljónir króna.

Fimm verkefni hljóta styrk til þriggja ára, sex verkefni til tveggja ára og fjórir styrkir eru veittir til doktorsnema sem ljúka rannsóknum á næsta ári.

Sex styrkþeganna koma erlendis frá til doktorsnáms við Háskóla Íslands.

Verkefni styrkþeganna eru fjölbreytt og má þar nefna rannsókn á næringu ungbarna fyrstu mánuði ævinnar, athugun á ragnarökum í norrænni goðafræði og úttekt á eðli og áhrifum óblíðra náttúruafla á mannlegt samfélag. Þá má einnig benda á rannsókn á uppeldissýn foreldra og leit að virkum náttúruefnum í íslenskum plöntum sem gagnast geta í baráttunni við Alzheimer-sjúkdóminn.   

Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands var settur á laggirnar af Vestur-Íslendingum árið 1964 þegar þeir lögðu til hans hlutabréfaeign sína í Eimskipafélaginu. Hann var stofnaður til minningar um Vestur-Íslendinga og til að styðja stúdenta til náms við Háskóla Íslands. Sjóðurinn er  í vörslu Landsbankans og hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2005.

  Þá voru gerðar veigamiklar breytingar á fyrirkomulagi sjóðsins með það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands. Þetta er í fjórða skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Það var fyrst gert árið 2006 og síðan þá hefur á sjötta tug doktorsnema við háskólann hlotið styrk úr sjóðnum.

Úthlutunin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands klukkan þrjú.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×