Viðskipti erlent

Líkir Goldman Sachs við vampýrukolkrabba

Grein í tímaritinu Rolling Stone hefur valdið því að markaðsverðmæti Goldman Sachs, voldugasta fjárfestingarbanka heimsins hefur minnkað um 400 milljarða króna.

Greinin er skrifuð af blaðamanninum Matt Taibbi og í henni lýsir hann Goldman Sachs sem vampýrukolkrabba sem leggst á allt sem lyktar af peningum. Í greininni lýsir hann hvernig bankinn laug ítrekað að viðskiptavinum sínum sem og þingnefnd á Bandaríkjaþingi þótt þar væru yfirmenn bankans eiðsvarnir um að segja sannleikann.

Samkvæmt greininni laug Goldmann Sachs að viðskiptavinum sínum um að bankinn hefði tekið stöðu gegn þeim í svokölluðum undirmálslánum á bandaríska fasteignamarkaðinum en þau lán urðu síðan undanfari fjármálakreppunnar. Bankinn laug einnig að viðskiptavinum sínum um innihald dauðadæmdra fjármálagerninga sem hann seldi þeim.

Llyod Blankfein forstjóri Goldman Sachs og tveir háttsettir yfirmenn bankans lugu síðan að þingnefnd um veðmál sín gegn undirmálslánunum, fasteignamarkaðinum og eigin viðskiptavinum. Reiknað er með að bandaríska dómsmálaráðuneytið hefji brátt sakarannsókn gegn Goldman Sachs vegna þessa máls.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×