Innlent

Dregur verulega úr tíðni sortuæxla

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Verulega hefur dregið úr tíðni sortuæxla hér á landi eftir mikinn faraldur um aldamótin. Fyrir um áratug greindust tvöfallt fleiri konur hér á landi með sortuæxli en á hinum Norðurlöndunum. Nú greinast jafnmargar konur hér á landi og í Danmörku.

Um 1990 hófst sortuæxlisfaraldur hér á landi hjá fólki undir fertugu. Faraldurinn var aðallega meðal kvenna. Talið er að mikil ljósabekkjanotkun á árunum þar á undan hafi haft sitt að segja. Íslendingar sem áður höfðu verið með eina lægstu tíðni sortuæxla á Norðurlöndunum voru allt í einu orðnir sú þjóð sem hafði hæstu tíðnina. Í kringum aldamótin greindust tvöfallt fleiri konur undir fertugu með sortuæxli hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Upp úr því tók hins vegar tilfellunum að fækka. Nú er svo komið að fjöldi tilfella hér á landi er svipaður og í Danmörku.

Laufey Kristjánsdóttir er framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár. Hún segir þetta mikla lækkun og að greinilega sé eitthvað að gerast. Fyrst hafi þau haldið að um tilviljansveiflu hafi verið að ræða en niðursveiflan hafi hins vegar haldið sér.

Laufey telur að tvennt geti skýrt það að faraldurinn sé í rénun. Annars vegar að ljósabekkjum hafi fækkað og notkun þeirra dregist saman hjá þessum aldurshóp. Hins vegar að fólk hafi í auknu mæli farið í skoðun til húðlækna og látið skoða fæðingrabletti og aðra bletti.

Árlega deyja níu hér á landi af völdum sortuæxla en um fimmtíu greinast. Þrátt fyrir faraldurinn hefur dánartíðnin ekki aukist hjá ungu fólki hér á landi. Hún hefur hins vegar gert það hjá eldra fólki. Laufey segir að eldra fólk þurfi að herða sig í að fara í blettaskoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×