Innlent

Bjarni Harðar: Orkar tvímælis að flokka Khat sem fíkniefni

Bjarni Harðarson.
Bjarni Harðarson.
Það orkar mjög tvímælis að flokka khat sem fíkniefni. Í Bretlandi er efni þetta leyft og þó að neysla þess sé kannski álíka ávanabindandi og kaffi þá eru áhrifin óveruleg", skrifar Bjarni Harðarson, upplýsingafulltrúi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, um efnið Khat sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á.

Fjórir útlendingar sitja í gæsluvarðhaldi eftir að þeir voru gripnir með efnið hér á landi, en þeir ætluðu að smygla því til Kanada. Um var að ræða 60 kíló af efninu sem er ættað frá Norður-Afríku.

Khat efnið sem lögreglan lagði hald á.Mynd Valli
„Þetta er mjög náttúrulegt efni og á sér langa hefð en kannski er samt engin ástæða til að leyfa það hér á norðurhjaranum", skrifar upplýsingafulltrúinn svo á bloggi sínu um málið en Khat er mikið notað í Jemen og í Sómalíu.

Efnið er í raun planta sem er tuggin og verður fólk fyrir örvandi áhrifum í líkingu við þau sem fólk kemst í, neyti það amfetamíns, þó ekki nærri jafn sterkt.

Efnið er, eins og Bjarni segir, löglegt í Bretlandi. Í Ástralíu er plantan hinsvegar lögð að jöfnu við kannabisefni.

Ekki náðist í Bjarna við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×