Innlent

Forstöðumenn vilja hærri laun - hóta málsókn

Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands er formaður samtakanna.
Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands er formaður samtakanna.
Félag forstöðumanna ríkisstofnana krefst þess í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi félagsins í dag að launalækkun félagsmanna verði afturkölluð. Kjararáð lækkaði laun félagsmanna þann fyrsta mars 2009 og hefur lækkunin ekki verið tekin til baka. Á þessu vill félagið að gerð verði bragarbót strax auk þess sem laun forstöðumanna verði endurskoðuð. Í ályktuninni segir ennfremur að verði kjararáð ekki við kröfunum sé eðlilegt að farið verði með málið fyrir dómstóla. "Meint lögbrot kjararáðs snýst ekki aðeins um laun og starfskjör forstöðumanna ríkisstofnana heldur grefur það undan trausti og virðingu fyrir íslenskri stjórnsýslu," segir einnig og því bætt við að við það verði ekki unað.

Bent er á að laun forstöðumanna hafi að meðaltali lækkað um 9,2 prósent í mars og síðan þá hafi verðlag hækkað og kaupmáttur rýrnað.

Á fundinum var Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands endurkjörinn formaður félagsins en auk hans voru kjörin í stjórn þau Anna Birna Þráinsdóttir sýslumaður í Vík, Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar, Ingibjörg Sverrisdóttir landsbókavörður, Magnús Skúlason forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Már Vilhjálmsson skólameistari Menntaskólans við Sund, Sveinn Margeirsson forstjóri Matís og Sigríður Lillý Baldursdóttir forstjóri Tryggingastofnunar.

Í starfskjaranefnd félagsins voru eftirfarandi kjörin: Steingrímur Ari Arason (formaður), forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, Kristín Völundardóttir forstjóri Útlendingastofnunar og Indriði H. Þorláksson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×