Innlent

Ætluðu til Reykjavíkur í meðferð en enduðu utan vegar

Tveir menn veltu bíl rétt hjá Blönduósi fyrr í dag en bílnum höfðu þeir stolið á Sauðárkróki nokkru áður. Þeir höfðu þá verið til nokkurra vandræða í bænum áður en þeir lögðu af stað frá Sauðárkróki á stolna bílnum.

Á fréttavefnum Feyki kemur fram að í morgun hafi mennirnir bókað sig í áætlunarflug með flugfélaginu Erni til Reykjavíkur en þegar að farþegar gerðu athugasemd við ástand þeirra hafi þeim verið vísað frá borði. Þaðan héldu mennirnir aftur inn á Sauðárkrók og gengu á milli bíla í leit að verðmætum auk þess sem þeir fóru inn í íþróttahúsið á Sauðárkróki í sama tilgangi.

„Ekki höfðu þeir mikið upp úr krafsinu nema hvað að þeir náðu að stela bíl og ætluðu að freista þess að fara landleiðina suður þar sem flugleiðin var þeim klárlega ófær. Á flugvellinum höfðu mennirnir á orði að þeir væru á leið í meðferð,“ segir á vef Feykis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×