Innlent

Prestur um heimsendaspá 21. maí: Þetta er bara hræðsluáróður

Boði Logason skrifar
Séra Hjálmar Jónsson, segir að fólk þurfi ekki að óttast heimsendi þann 21. maí næstkomandi.
Séra Hjálmar Jónsson, segir að fólk þurfi ekki að óttast heimsendi þann 21. maí næstkomandi.
„Nei, ég er viss um það, það er ekki hægt að vitna í neitt í Biblíunni sem vísar á þennan dag," segir séra Hjálmar Jónsson, prestur við Dómkirkjuna í Reykjavík, aðspurður hvort heimsendir verði þann 21. maí næstkomandi, líkt og hópur í Bandaríkjunum hefur haldið fram með auglýsingum í fjölmiðlum undanfarið.

Hópurinn, sem nefnir sig FamilyRadio.com, varar fólk við að dómsdagur verði 21. maí næstkomandi í blaða- og sjónvarpsauglýsingum. Sagt er að mjög svo öflugur jarðskjálfti verði milli klukkan 6 og 7:45 að morgni til og enn sterkari skjálfti á milli 20 og 20:45 - í kjölfarið muni heimurinn farast. Í auglýsingu frá hópnum segir að Bíblían muni tryggja það að dómsdagur verði þennan dag.

Ekkert annað en hræðsluáróður

Séra Hjálmar segir að það séu ekki meiri líkur á heimsendi núna frekar en síðustu þúsund eða milljónir ára. „Þegar maður les söguna þá eru alltaf svona spádómar í gangi, þeir virðast vera notaðir í ákveðnum pólitískum tilgangi og til að ná eyrum fólks. Svo líður tíminn og einhverjir eru hræddir eða líður illa með þetta," segir séra Hjálmar. „Þetta er ekkert annað en hræðsluáróður."



Auglýsing frá hópnum FamilyRadio.com
Aðspurður hvort að það komi fram í Biblíunni að það verði heimsendir fyrr eða síðar segir hann að svo sé. „Heimsendaspár eru mjög eindregnar í Biblíunni, þar kemur fram að þessi heimur muni líða undir lok í þeirri mynd sem hann er við endurkomu Jesú Krists. Það getur verið á morgun eða eftir milljón ár," segir séra Hjálmar og tekur fram að veröldin sé okkur tímanleg.

Fólk deyr ekki í stafrófsröð

Hann vonast til að þess að það komi þeim sem spái heimsendi þægilega á óvart að það verði ekki heimsendir þann 21. næstkomandi. „Þessi heimur er ótryggur, maður heyrir nánast daglega um slysfarir og hörmungar, en heimsendir hefur ekki orðið. Hinsvegar er það heimsendir fyrir þá sem verða fyrir slysi eða annari ógæfu," segir séra Hjálmar. „Okkar tími verður einhvern tímann búinn hérna, það verður ekki hjá öllum í einu - fólk deyr ekki eftir aldri eða í stafrófsröð."

„Ég held að við eigum miklu frekar að snúa okkur að því að gera lífið áhyggjulaust og hamingjusamt en að hræða hvort annað með því að heimurinn sé að líða undir lok," segir hann. „Ég vona að þeir vakni glaðir og reiðir að morgni 22. maí þeir sem spá heimsendi 21. maí og snúi sér að einhverju öðru mikilvægara og uppbyggilegra," segir séra Hjálmar að lokum.

Hægt er að hlusta á viðtal við Chris McCann hjá Familyradio.com, sem útvarpsþátturinn Harmageddon tók í síðustu viku, hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×