Innlent

Veðurstofan varar við vorhreti

Spákort veðurstofunnar.
Spákort veðurstofunnar.
Veðurstofan vill vekja sérstaka athygli á vorhreti framundan. Í tilkynningu segir að stíf norðaustan- og norðanátt verði ríkjandi næstu daga með kólnandi veðri á landinu öllu. Á morgun má reikna með slyddu á heiðum og fjallvegum á svæðinu frá Tröllaskaga til Austfjarða, en aðfaranótt fimmtudags bætir í vind á því svæði og úrkoma verður slydda eða snjókoma, jafnt á láglendi sem til fjalla.

„Á föstudag má búast við 0 til 5 stiga frosti og éljagangi á Norður- og Austurlandi. Sunnan- og vestanlands verður úrkomulaust þessa daga, en líkur á næturfrosti. Á laugardag og sunnudag verður norðanáttin mun hægari en dagana á undan, en áfram kalt fyrir norðan og dálítil él,“ segir einnig um leið og því er beint til ferðafólks að það hafi í huga að aksturskilyrði geta spillst norðan- og austanlands þessa daga. Jafnframt er bændum bent á að huga að skjóli fyrir viðkvæman búsmala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×