Innlent

Nýstárleg mannvirki í Öskjuhlíð

Í Öskjuhlíð hafa verið reist 7 hús á síðustu dögum sem koma til með að standa þar í nokkra daga. Mannvirkin eru hönnuð og byggð af nemendum í byggingartæknifræði við Háskólann í Reykjavík og arkitektanemum við LHÍ. Verkefnið er hluti af námskeiðinu Hönnun, ferli, framkvæmd, sem er undir leiðsögn arkitektanna Björns Guðbrandssonar og Jóhanns Sigurðssonar.

„Markmiðið er að nemendur öðlist skilning á hönnunarferli bygginga og samspili hönnunarfaga og þá sérstaklega arkitektúrs og tæknifræði/verkfræði, - frá skissu að fullreistu mannvirki," segir í tilkynningu frá HR.

Þá segir að byggðin samanstandi af mannvirkjum sem flest má reisa á skömmum tíma, veita skjól fyrir veðri og vindum en eru þó hvorki hús né kofi. „Mannvirkin eru unnin úr efni sem til fellur við framkvæmdir af ýmsu tagi, timbri, plasti, frárennslisrörum, neti, dúk og svo mætti lengi telja. Útlit þeirra er jafn fjölbreytilegt og þau eru mörg. Sum hanga sem í lausu lofti, önnur kúra í kuðung eða opnast sem skel. Einhver húsanna fanga vatn til drykkjar og veita jafnframt gott skjól. Í sumum er gólfið grundin græn í öðrum er rúm eða rekkja. Notagildi er meira í sumum en minna í öðrum. Öll eiga þau sammerkt að lýsa hugmyndaflugi og frumleika - hvort sem er í einu eða öllu af eftirfarandi: hönnun, útliti, notagildi, lausnum og/eða tæknilegri hugsun."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×