Innlent

Tókst á loft og endaði á ljósastaur

Akranes.
Akranes.
Ölvaður ökumaður ók niður ljósastaur  við Esjubraut á Akranesi á fimmtudaginn í síðustu viku. Vitni lýstu atburðinum þannig að bifreiðinni hafi verið ekið með miklum hraða um Esjubraut og síðan yfir hringtorg þar sem hann tókst á loft. Hann lenti síðan á gangstétt og stöðvaðist á ljósastaur sem þar var fyrir. Ökumaður var talsvert lemstraður og var fluttur á slysadeild en reyndist ekki alvarlega meiddur.

Í gærkvöldi stöðvuðu lögreglumenn frá Akranesi svo  bifreið í Hvalfirði vegna gruns um að ökumaður væri undir áhrifum fíkniefna. Lögreglumönnum á vettvangi þótti öruggara að kanna málið betur og fengu starfsbróðir úr Borgarnesi til liðs við sig.  Hann kannaði vegaspotta næst staðnum þar sem ökumaðurinn var stöðvaður og fann þar poka með 100 grömmum af kannabisefnum.

Ökumaðurinn var  færður á lögreglustöð til skýrslutöku. Viðurkenndi hann að eiga pokann og hafa kastað honum út úr bílnum þegar hann varð var við lögregluna. Þá leiddi athugun á lögreglustöð til þess að hann væri undir áhrifum amfetamíns, kókaíns og kannabisefna.

Göt voru stungin í topp bifreiðar, líklega með skrúfujárni eða einhverju álíka og  tvær bifreiðar voru skemmdar eftir högg eða spark á Akranesi í síðustu viku. Þá virðist sem reynt hafi verið að brjótast inn í heimahús með því að spenna upp glugga samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akranesi. Það tókst þó ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×