Íslenski boltinn

Ólafur Örn: Vantar herslumuninn

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ólafur Örn Bjarnason.
Ólafur Örn Bjarnason. Mynd/Stefán
Ólafur Örn Bjarnason þjálfari Grindavíkur getur verið sáttur við margt í leik sinna manna gegn Keflavík í kvöld þrátt fyrir 2-0 tap.

„Þetta er eins og í síðasta leik. Við erum að fá fín færi og spila ágætlega úti á velli og fáum ekki mörg færi á okkur en á meðan þú skorar ekki og hitt liðið skorar og nær að liggja til baka og verjast þá verður þetta erfitt. Leikurinn er ekkert alslæmur en mér finnst vanta kraft til að klára sóknir, skot eða sinn mann í seinni hálfleik," sagði Ólafur.

„Keflvíkingum fór að líða vel er leið á seinni hálfleikinn en við vorum alltaf að nálgast teig þeirra og mark en það vantaði síðustu prósentin til að vera í öðrum boltanum þegar boltinn kemur inn í stað þess að vera að bregðast við þeim seinna."

Seinna mark Keflavíkur var æði slysalegt þar sem Óskar Pétursson hitti ekki boltann sem fór fyrir Guðmund Steinarsson sem skoraði auðveldlega. „Menn hefðu ekki verið að tala um það ef við hefðum klárað færin sem við fengum í fyrri hálfleik. Þetta er ekki meira slys hjá honum en hjá framherja að brenna af einn á móti markmanni. Þetta eyðilagði leikinn svolítið en ef við náum halda þessu uppi, verjast eins og við gerðum í dag og spila þokkalega og bæta við þessum metrum sem okkur vantar aðeins þá hef ég engar áhyggjur af okkur," sagði Ólafur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×