Innlent

Gæti verið auðveldara að sækja fé á erlenda lánamarkaði

Lánshæfismatsfyrirtækið Fitch ratings hefur uppfært lánshæfishorfur Íslands úr neikvæðum í stöðugar. Seðlabankastjóri segir að þetta gæti auðveldað ríkissjóði að sækja sér fé á erlendum lánamörkuðum.

Þessi er fyrsta jákvæða breytingin sem Fitch hefur gert á lánshæfishorfum Íslands síðan 2006, en í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að hún komi til vegna endurmats á áhrifum Icesave samninganna. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að breytingin hafi ekki komið sér á óvart, enda hafi seðlabankinn verið í stöðugu sambandi við matsfyrirtækin.

Lántaka ríkissjóðs erlendis setur viðmið fyrir lántökur annarra, auk þess sem hún er ein forsenda þess að gjaldeyrishöftin verði afnumin. Már telur að aðalástæðan fyrir breytingunni hjá Fitchséu jákvæð þróun í efnahagslífinu, auk þess sem gjaldeyrisforði landsins sé afar stór og hann hafi verið notaður til að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Einkunn Íslands hjá Fitch er þó enn lægri en hjá hinum stóru matsfyrirtækjunum, en fyrirtækið segir að lykilatriði í uppfærslu einkunnarinnar séu meðal annars endurskipulagning skulda í einkageiranum, aflétting gjaldeyrishaftanna og áframhaldandi stöðugleiki í peningamálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×