Innlent

Haldið nauðugum í meira en hálfan sólarhring

Mynd úr safni
Mynd úr safni
Tveir karlmenn á þrítugs- og fertugsaldri hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald eftir að þeir voru handteknir í Hafnarfirði á miðvikudag vegna líkamsárásar á karlmann á þrítugsaldri.

Þolandinn var með áverka víða á líkamanum og er meðal annars nefbrotinn, segir í tilkynningu frá lögreglu. Lögreglan telur að manninum hafi verið haldið nauðugum í meira en hálfan sólarhring og að barsmíðarnar hafi farið fram á jafnvel fleiri en einum stað.

Á dvalarstað árásarmannanna var lagt hald á bæði fíkniefni og ýmis barefli. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að mennirnir og þolandinn séu taldir tengjast ákveðnum vélhjólaklúbbi. Sérsveit ríkislögreglustjóra aðstoðaði lögregluna við aðgerðina í fyrradag.

Mennirnir sæta gæsluvarðhaldi til 20. maí næstkomandi. Þeir hafa kært úrskurðinn til Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×