Viðskipti erlent

Tchenguiz ætlar í skaðabótamál við SFO

Vincent Tchenguiz ætlar í skaðabótamál gegn efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (SFO) vegna húsleita og handtöku hans og bróður hans Roberts í mars s.l. Húsleitirnar og handtökunnar voru liður í umfangsmiklum aðgerðum SFO í samvinnu við Sérstakan saksóknara á Íslandi og eru hluti af rannsókn þessara aðila á Kaupþingi.

Fjallað er um málið í Financial Times. Þar segir að lögmenn fjölskyldusjóðs Tchenguiz hafi lagt fyrir SFO lögfræðilegt álit þess efnis að húsleitirnar hafi verið ólöglegar og að þær ætti að strika út.

Samkvæmt álitinu fékk dómarinn, sem heimilaði húsleitirnar, ekki  fullnægjandi upplýsingar. Þar að auki hafi SFO farið út fyrir heimildirnar með því að gera upptæk gögn sem tengjast ekki rannsókninni á Kaupþingi.

„Þar sem skilyrðum fyrir húsleitarheimildinni var ekki fullnægt ætti hún því að falla úr gildi og þar með ætti að lýsa því yfir að leitin og handtökurnar hafi verið ólöglegar,“ segir í álitinu.

Financial Times segir að fáist lögfræðiálitið staðfest gæti það orðið grundvöllur að skaðabótamáli sem Tchenguiz ætlar að höfða gegn SFO.

Hvorki talsmaður Tchenguiz né SFO vildu tjá sig um málið við Financial Times.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×