Innlent

Biðlað til Svandísar og Jóhönnu að hlífa hvítabjörnum

Þessi ísbjörn var felldur í Skagafirði fyrir fáeinum árum.
Þessi ísbjörn var felldur í Skagafirði fyrir fáeinum árum.
Alþjóðlegt bænaskjal til þeirra Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, um að hlífa hvítabjörnum, hefur nú verið opnað á netinu og hafa yfir sexhundrað manns þegar skrifað undir og virðast útlendingar vera í miklum meirihluta.

"Stop the killings of polar bears in Iceland", eða "stöðvið ísbjarnardrápin á Íslandi", er yfirskrift undirskriftasöfnuninnar. Fyrir henni standa sömu aðilar og vinna að því að koma á fót athvarfi fyrir hvítabirni í Reykjavík, en þau kalla sig Reykjavik Polar Bear Project.

Á heimasíðu þeirra er almenningi boðið að rita nafn sitt undir bænaskjal sem beint er til umhverfisráðherra og forsætisráðherra, þeirra Svandísar Svavarsdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem ríkisstjórn Íslands er hvött til að breyta stefnu sinni gagnvart hvítabjörnum. Fullyrt er að Ísland sé mjög framsækið land og að slíkt óþarfa ofbeldi sé algerlega óviðunandi.

Nú laust fyrir fréttir höfðu yfir 640 manns skrifað undir bænaskjalið og til þessa virðast útlendingar vera í miklum meirihluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×