Fótbolti

Ferguson: Snýst ekki um hefnd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sir Alex Ferguson ræðir við blaðamenn í dag.
Sir Alex Ferguson ræðir við blaðamenn í dag. Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, stjóri Manchester United, sagði á blaðamannafundi í dag að úrslitaleikurinn gegn Barcelona á morgun snúist ekki um að hefna fyrir tapið í Rómarborg árið 2009.

United mætir Barca í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á Wembley-leikvanginum í Lundúnum annað kvöld. Þessi sömu lið áttust við í úrslitaleiknum árið 2009 og þá höfðu Börsungar betur, 2-0.

Ferguson segir að hann hafi lært mikið af þeim leik, sem og leikmenn United en þeir náðu sér fæstir á strik í áðurnefndum úrslitaleik. Samt sem áður segir Ferguson að leikurinn á morgun snúist ekki um að hefna þeirra ófarra.

„Það var okkur vonbrigði að tapa leiknum en fyrir okkur snýst þetta ekki um hefnd - heldur okkar eigið stolt,“ sagði Ferguson í dag.

Hann segir að leikmenn hafi lært mikið af leiknum og að það gæti reynst dýrmætt í þetta skiptið. Reynslan hafi margoft sýnt sig á núverandi tímabili í Meistaradeildinni.

„Við erum með leikmenn í okkar röðum sem finnst gaman að spila í svona stórum leikjum. Rooney er mun þroskaðri í dag en hann var fyrir tveimur árum og hið sama á við um fleiri leikmenn.“

„Reynsla Rio Ferdinand og Nemanja Vidic er liðinu einnig lífsnauðsynleg. Við höfum staðið okkur vel í Meistaradeildinni á tímabilinu og það þýðir að við eigum góðan möguleika í leiknum á morgun.“

„Vissulega er Barcelona með frábært lið og hæfileikaríka leikmenn. En við munum líka sýna hvað í okkur býr. Þetta gæti því orðið frábær leikur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×