Innlent

Dæmdur fyrir að neyða mann til þess að millifæra af heimabanka sínum

Heimabanki. Mynd úr safni.
Heimabanki. Mynd úr safni.
Karlmaður var dæmdur í átján mánaða óskilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun fyrir að hafa, ásamt tveimur öðrum karlmönnum, svipt mann á sextugsaldri frelsi sínu og neyða hann til þess að millifæra rúmlega hundrað þúsund krónur yfir í heimabanka eins af mönnunum.

Árásin átti sér stað í desember árið 2009 en hún var hrottafengin. Meðal annars tóku mennirnir fórnarlambið hálstaki og tróðu tusku upp í munninn á honum.

Svo neyddu þeir manninn til þess að millifæra 110 þúsund krónur yfir á reikning eins af meintu árásarmönnunum. Þá eiga þeir að hafa safnað saman verðmætum á heimili mannsins fyrir um 80 þúsund krónur og flutt hluta af þeim á brott.

Ekki hefur tekist að þingfesta málið yfir hinum tveimur mönnunum.

Sá sem var dæmdur núna er fæddur árið 1966 og hefur margsinnis komist í kast við lögin. Hann er meðal annars á skilorði eftir að hafa gengið í skrokk á eldri manni á Laugaveginum og rænt hann í kjölfarið.

Manninum er gert að greiða fórnarlambi sínu tæplega hálfa milljón í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×