Fótbolti

Evra: Ég má bara ekki tapa öðrum úrslitaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrice Evra.
Patrice Evra. Mynd/Nordic Photos/Getty
Patrice Evra hefur kynnst því bæði að vinna og tapa úrslitaleik í Meistaradeildinni. Hann vann titilinn með Manchester United 2008 en þurfti að sætta sig við silfrið með bæði Mónakó-liðinu árið 2004 og með United fyrir tveimur árum. Evra spilar því sinn fjórða úrslitaleik á Wembley á morgun þegar Manchester United mætir Barcelona.

„Ég má bara ekki tapa öðrum úrslitaleik. Ef ég hef spilað fjóra úrslitaleiki og aðeins unnið einn þá yrði það erfitt fyrir mig að halda áfram að spila í Meistaradeildinni. Kannski myndi ég biðja stjórann um að nota mig ekki aftur í Evrópukeppninni," sagði Evra væntanlega meira í gríni en alvöru í viðtali við Sky Sports.

„Ég verð að vinna þennan og það er mikilvægt að halda Manchester United á toppnum í heimsfótboltanum," sagði hinn þrítugi franski bakvörður sem hefur unnið níu stóra titla með United þar af varð hann ensku meistari í fjórða sinn á dögunum.

„Meistaradeildabikarinn er sá stærsti og allir í heiminum vilja vinna hann en það er vissulega mikilvægt að vinna ensku deildina. Það mjög erfitt að verða enskur meistari og ég er mjög stoltur að hafa unnið enska titilinn fjórum sinnum. Það er bara allt annað að vinna Meistaradeildina," sagði Evra.

„Það fylgja töfrar kvöldi úrslitaleiksins í Meistaradeildinni og ég man enn eftir tilfinningunni þegar við unnum. Það fylgir því hinsvegar mjög slæm tilfinning að tapa og ég ætla ekki að láta það koma fyrir aftur," sagði Evra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×