Innlent

Taka upp rafræna vöktun með föngum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar Alþingis.
Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar Alþingis.
Til stendur að taka upp rafræna vöktun með föngum á Íslandi. Frumvarp þessa efnis hefur verið flutt á Alþingi og er núna í meðferð allsherjarnefndar Alþingis. Rafræn vöktun með föngum er þekkt víða erlendis. Skemmst er að minnast þess að Dominique Strauss-Kahn, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, var látinn laus úr gæsluvarðhaldi gegn því skilyrði að hann gengi með rafrænt ökklaband.

Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, segir að hér á Íslandi sé verið að tala um að nota símabúnað, en ekki rafræn ökklabönd. „Það er staðsetningarbúnaður í þessu og hægt að sjá hvar þú ert," segir Róbert í samtali við Vísi. Auk þess er myndavél í búnaðinum. „Þannig að það er hægt að hringja af handahófi og þú þarft að svara strax og þá ertu í mynd,“ segir Róbert. Hann segir að þetta mál sé hugsað sem mögulegt afplánunarúrræði

Auk þessa gerir frumvarpið ráð fyrir því að möguleikar á að afplána fangelsisdóma með samfélagsþjónustu séu rýmkaðir. Nú er miðað við að þeir sem fái fangelsisdóma sem eru sex mánuðir eða styttri geti tekið refsingu út í samfélagsþjónustu. Róbert segir að samkvæmt frumvarpinu geti tíminn numið allt að tólf mánuðum.

Íslensk fangelsismálayfirvöld standa frammi fyrir bráðum húsnæðisvanda, því langir biðlistar eru eftir afplánun. Aðspurður segir Róbert að þessar breytingar sem felast í frumvarpinu komi til með að hafa áhrif á vandann. „Það þýðir að það eru fleiri sem fara fyrr út úr fangelsum,“ segir Róbert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×