Innlent

Metfjöldi á geðdeildinni - komið að sársaukamörkum

Erla Hlynsdóttir skrifar
Sjúkrahúsið á Akureyri. Ekkert fjármagn er fyrir hendi til að ráða fólk í sumarafleysingar á dag- og göngudeild geðdeildarinnar.
Sjúkrahúsið á Akureyri. Ekkert fjármagn er fyrir hendi til að ráða fólk í sumarafleysingar á dag- og göngudeild geðdeildarinnar.
Komum á dag- og göngudeild geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri fjölgar ár frá ári og nú svo komið að deildin annar vart fleiri sjúklingum. Metfjöldi kom á deildina árið 2010.

„Það er ekki spurning að við erum komin að sársaukamörkum," segir Árni Jóhannesson, yfirlæknir á dag- og göngudeild geðdeildar FSA. Hann fullyrðir að komur hefðu orðið enn fleiri á síðasta ári ef fleira starfsfólk væri til staðar. „Hingað til höfum við getað sinnt nánast öllum sem vísað er til okkar en með þessu áframhaldi þurfum við að fara að forgangsraða," segir hann.

Hátt í 700 sjúklingar

Rúmlega 4500 komur voru á dag- og göngudeild geðsviðs FSA á síðasta ári, sem er um 17% fjölgun frá árinu á undan. Hátt í 700 sjúklingar nýttu sér þjónustu deildarinnar á síðasta ári.

Fram til ársloka 2008 voru dagdeild og göngudeild geðsviðs aðskildar deildir. Vegna niðurskurðar var stöðugildum á geðsviði FSA fækkað þá um áramótin, dagdeild geðdeildar var lögð niður og í framhaldi opnuð ný sameinuð dag- og göngudeild.

Enginn ráðinn í sumarafleysingar

Árni segir enga fjárveitingu vera fyrir hendi til að hægt sé að ráða fólk í sumarafleysingar. „Starfsemin mun því skerðast í sumar sem nemur sumarleyfum starfsfólks," segir hann. Sumrin hafa þó almennt verið rólegri en vetrarmánuðirnir - „sem betur fer" - og vonar Árni að þannig verði það einnig í sumar.

Spurður hvort frekari niðurskurður sé fyrirhugaður hjá deildinni segir Árni: „Ég vona ekki. En það er ekkert öruggt í hendi með það. Þú verður eiginlega bara að spyrja ráðuneytið."

Þunglyndi í fyrsta sæti

Algengast er að þeir sem nýta sér þjónustu geðdeildarinnar þjáist af þunglyndi eða kvíðaröskunum. Um 40% sjúklinga eru með þunglyndi sem fyrstu greiningu og um 37% þeirra eru með kvíða sem fyrstu greiningu.

Spurður um möguleg tengsl efnahagskreppunnar við hækkandi tíðni geðsjúkdóma segir Árni að erfitt sé að segja til um það svo stuttu frá hruni. Hann bendir á að eftir kreppuna miklu í Finnlandi hafi sú verið raunin. Hins vegar hafi það tekið lengri tíma að sjá áhrif kreppunnar á geðheilbrigði landsmanna.

Meiri forgangsröðum blasir við

„Ég get samt staðfest að við fáum fleiri tilvísanir í hverri viku en við höfum áður fengið. Við höfum áhyggjur af því að þetta verði þróunin og að þetta haldi áfram að aukast. Við sjáum engin merki um að það verði lát á," segir Árni.

„Með sama áframhaldi verðum við að forgangsraða meira, því miður," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×