Innlent

Streita hefur aukist hjá konum eftir hrun

Lillý Valgerður Pétursdóttir. skrifar
Efnahagshrunið hefur haft meiri áhrif á heilsu kvenna hér á landi en karla samkvæmt niðurstöðum nýrra rannsókna. Streita meðal kvenna hefur aukist töluvert eftir hrun. Á sama tíma hefur hefur nýburum með lága fæðingarþyngd fjölgað.

Síðustu ár hefur hópur fræði- og vísindamanna unnið að fjölda rannsókna á áhrifum efnahagshrunsins á heilsu og líðan Íslendinga. Fyrstu niðurstöður eru nú að líta dagsins ljós.

Niðurstöður rannsóknanna verða kynntar á fyrirlestri í Þjóðminjasafninu á morgun. Unnur Valdimarsdóttir forstöðumaður miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands hefur haft yfirumsjón með verkefninu. Hún segir að fyrstu niðurstöður bendi til þess að áhrifin séu mest meðal kvenna. Það hafi komið á óvart. Niðurstöðurnar sýni að upplifun á sálrænni streitu sé að aukast eftir hrunið, langmest á meðal kvenna.

Streita hefur einnig aukist meðal þeirra sem misst hafa vinnuna og þeirra sem tilheyra millitekjuhópum. Endanlegar tölur um aukningu streitu meðal kvenna liggja ekki fyrir en marktækt aukin áhætta á háu streitustigi er í kringum þriðjungur.

Um ástæðurnar fyrir þessari auknu streitu segir Unnur að þær geti verið ýmsar. Rannsóknir bendi til að konur séu viðkvæmari fyrri áföllum. Það megi líka vel vera að fjármál fjölskyldunnar snerti þær meira og að þær séu óöruggari á vinnumarkaðnum. Enn sé verið að rýna í gögnin til að leita skýringa.

Streituaukningin er mest hjá konum á milli tvítugs og þrítugs og konum í kringum eftirlaunaaldur. Unnur segir að streitan geti haft margvísleg áhrif. Meðal annars sé verið að skoða tengsl milli aukinnar streitu og þess að nýburum með lága fæðingarþyngd hafi fjölgað eftir hrun. Það er börnum sem fæðast undir 2500 grömmum. Unnur segir að streita móður geti vissulega haft áhrif á vöxt fóstursins svo og það ef hún breytir neysluvenjum sínum á meðgöngunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×