Innlent

Hvetja bændur til að setja búfé út

Mynd/Valgarður
Mynd/Valgarður
Matvælastofnun mælir með að bændur á öskufallssvæðinu meti aðstæður og setji búfé út ef mögulegt er. Í tilkynningu segir að þó sé mikilvægt að hafa það á svæði þar sem auðvelt er að hafa eftirlit með því og smala því saman ef á þarf að halda. Jafnframt þarf að tryggja því aðgang að hreinu drykkjarvatni, góðu fóðri, salti og steinefnum.

Í tilkynningu segir ennfremur að lítið hafi verið um dauða eða veikindi í búfé. Askan veldur þó særindum í augum og þörf getur verið á að hreinsa augun, gott er að nota úðabrúsa til að úða vatni á augun.

„Rannsóknir sem gerðar hafa verið á efnainnihaldi í ösku og vatni benda til að flúorstyrkur sé lítill. Búnaðarsamband Suðurlands og Landbúnaðarháskóli Íslands eru við sýnatökur í dag af ösku og gróðri og niðurstöður rannsókna á þeim er að vænta í næstu viku. Sérgreinadýralæknir sauðfjár- og nautgripasjúkdóma hjá Matvælastofnun fer í dag ásamt ráðunauti frá Búnaðarsambandi Suðurlands og heimsækir bændur ásamt héraðsdýralækni,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×