Innlent

Ferðamaðurinn hafði samband við Neyðarlínuna

Þýskur ferðamaður, sem leitað var að í nótt, hafði samband við Neyðarlínuna nú fyrir skömmu og óskaði eftir aðstoð. Björgunarsveitir af Suðausturlandi eru nú á leiðinni að leita mannsins en hann mun vera einhversstaðar norðan Vatnajökuls.

Ferðamaðurinn hefur ekki getað gefið upp nákvæma staðsetningu en í tilkynningu frá slysavarnarfélaginu Landsbjörgu segir hann hafi þó getað gefið einhverjar upplýsingar auk þess sem hægt var að miða út grófa staðsetningu hans út frá símasendum á svæðinu.

Eftirgrennslan björgunarmanna eftir manninum í alla nótt bar ekki árangur þrátt fyrir ákjósanleg leitarskilyrði í góðu skyggni. Þjóðverjinn var í sambandi við fjölskyldu sína þegar hann var staddur í Nýjadal í gær, en hafði ekki aftur samband og svaraði ekki í farsímann.

Því var hafin leit að honum í gærkvöldi á átta vélsleðum og tveimur jeppum. Leitað var í öllum skálum og reyndist hann hafa skráð viðkomu sína í skálanum Versölum á Sprengisandsleið, en annað er ekki vitað um ferðir hans.

Björgunarsveitir eru nú á leiðinni á svæðið við Nýjadal, norðan Vatnajökuls, að leita mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×