„Já, ég sendi þessa nýju dagskrá í gríni til verkefnisstjórans okkar á Egilsstöðum eftir að ég horfði á veðurspána í gær," segir Ómar Bragi, framkvæmdastjóri Unglingalandsmótsins.

Austfirðingar virðast hafa tekið gríni Ómars Braga heldur vel því „endurbætt" dagskrá var í morgun birt á vef Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands, UÍA, auk þess sem fréttavefurinn Austurglugginn gerir dagskránni skil. Ómar Bragi segist þó ekki hafa reiknað með því að grínið myndi ná alveg jafn mikilli útbreiðslu og raun ber vitni.
Hann vonast til að veðurblíðan sæki Austurland heim áður en langt um líður. „Ég var þarna bara um daginn í sól og blíðu," segir Ómar Bragi, og því greinilegt að skjótt skipast veður í lofti.
Snjórinn er að minnka þó enn sé illfært um suma hluta Egilsstaða. Ófært er yfir á Seyðisfjörð en tiltölulega hlýtt og heimamenn telja hið raunverulega sumar á næsta leiti.

Ef snjóstormur geisar í lok júlí má hins vegar alltaf styðjast við bráðabirgðadagskrána:
Mótsstjórn fyrirhugaðs Unglingalandsmóts á Egilsstöðum hittist á neyðarfundi í gær þar sem samin var ný dagskrá mótsins vegna breyttra aðstæðna á mótsstað. Fundurinn fór fram í gegnum síma enda ómögulegt að komast til eða frá Egilsstöðum til fundahalda.
Dagskrá 14. Unglingalandsmóts UMFÍ er því svohljóðandi:
Föstudagur:
08:00 Tekið á móti gestum við bæjarmörkin og þeim ekið á snjóbílum að Grunn- og menntaskólunum þar sem gisting er í boði.
09:00 Keppni hefst í 10 km. skíðagöngu.
10:00 Bobsleðakeppni.
10:30 Fjörkálfaklúbbur: Snjókast við pabba og mömmu.
11:00 Ístölt á Lagarfljóti.
12:00 Keppendum boðið upp á heita súpu.
13:00 Allir keppendur hjálpast að við að moka snjó af helstu götum bæjarins
15:00 Boðið upp á heitt kakó.
16:00 Keppni í vélsleðaakstri.
17:00 Keppni í skautadansi í Tjarnargarðinum.
19:00 Keppendum boðið upp á heita máltíð.
20:00 Setningarathöfn í Valaskjálf.
22:00 Björgunarsveitarmenn fylgja keppendum heim í snjóstorminum.
Hittumst á Egilsstöðum!