Innlent

Langaði til að gráta

Fjöldi bænda suðaustanlands má nú þola öskufall úr tveimur eldfjöllum á rúmu. Rætt var við bændur í kvöldfréttum Stöðvar 2 og sagði einn þeirra sig mest hafa langað til að gráta þegar gosið hófst í Grímsvötnum í gær.

„Manni langaði að fara að gráta. Það var bara þannig. Þetta er eitthvað sem ég vildi ekki sjá aftur," sagði Kristbjörg Hilmarsdóttir, bóndi á Þykkvabæjarklaustri 2. Undir það tók Sigurður Arnar Sverrisson, bóndi á Þykkvabæjarklaustri 2, og sagði ennfremur gosið margfalda vinnu fólks á svæðinu.

Aðspurð um framhaldið sagði Kristbjörg: „Ég veit það ekki. Tíminn verður að leiða það í ljós hvernig þetta endar. Við vonum að þetta verði stutt gos og að það fari að rigna vel á okkur," segir Kristbjörg.

Á bænum Ytri-Ásum höfðu Gísli Halldór Magnússon og Stefnir sonur hans í nógu að snúast þegar frétta- og myndatökumann Stöðvar 2 báru að í dag. Um næstu daga sagði Gísli Halldór: „Það fer náttúrlega alveg eftir því hvort það verði áfram öskufall. Ef það verður öskufall með þessum hætti þá líst manni ekkert á þetta. Það er mjög dökkt útlit ef að svo fer. Vonandi verður það ekki meira og þá sleppur þetta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×