Innlent

Ríkið sýknað af kröfu drengs með heilalömun

Erla Hlynsdóttir skrifar
Mynd úr safni
Íslenska ríkið var sýknað af kröfu fatlaðs drengs um skaða- og miskabætur vegna bótaskyldra mistaka heilbrigðisstarfsmanns eftir að móðir hans greindist með meðgöngueitrun. Foreldrarnir lögðu fram bótakröfuna fyrir hönd sonar þeirra sem fæddist með heilalömun, cerebral palsy, og er hann metinn 70% öryrki.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði ríkið af bótakröfunni, sem nam tæpum 44 milljónum.  Að mati dóms var „grundvallaratriðum læknisskoðunar" ekki sinnt við skoðun konunnar áður en meðgöngueitrunin var greind. Þar sem hins vegar er ekki hægt að fullyrða að veikindi drengsins megi rekja beint til þessarar ófullnægjandi læknisskoðunar er ríkið sýknað.

Fjórar merkur við fæðingu

Forsaga málsins er sú að sonurinn var tekinn með keisaraskurði eftir 28 vikna meðgöngu vegna alvarlegrar meðgöngueitrun móður. Drengurinn vó þá aðeins 976 grömm, eða tæpar fjórar merkur.  Hann fæddist árið 1999 og er því 12 ára í dag.

Foreldrarnir halda því fram að starfsmaður heilsugæslunnar hafi vanrækt að leggja móðurina þegar í stað inn á sjúkrahús eftir að hún greindist með meðgöngueitrun, til að hún fengið viðeigandi eftirlit og meðferð.

Íslenska ríkið hafnar því hins vegar að nokkurri bótaskyldu sé til að dreifa, auk þess sem krafan sé fyrnd, en  lögmaður ríkisins miðar 10 ára fyrningartíma við fæðingu drengsins og því sé kröfuréttur fyrndur þegar málið var höfðað.

Krafan ekki fyrnd

Í niðurstöðu dóms segir að við fæðingu drengsins hafi ekki verið ljóst hverjar horfur hans voru. Það hafi komið í ljós þegar leið á fyrsta árið að fyrirburafæðingin og veikindin sem fylgdu höfðu valdið honum skaða, og á næstu árum hafi síðan komið í ljós hversu alvarlegur skaðinn varð. Því sé ekki eðlilegt að miða upphaf fyrningarfrests við fæðingu drengsins. Mat dómsins er þar með að krafan hafi ekki verið fyrnd.

Ófullnægjandi læknisskoðun

Ennfremur kemur fram í niðurstöðu dóms að ef grundvallaratriðum mæðraskoðunar hefði verið sinnt þegar eftir því var leitað hefði sjúkdómurinn líklega verið greindur tveimur til þremur dögum fyrr. Það er álit dómsins að læknisskoðun sem var framkvæmd, áður en meðgöngueitrunin kom í ljós, hafi verið ófullnægjandi og „grundvallaratriðum læknisskoðunar" ekki sinnt.

Ekki orsakatengsl

Þá segir í dómi:

„Hins vegar bendir ekkert til þess, þótt meðgöngueitrunin hefði þá komið í ljós og innlögn átt sér stað að það hefði einhverju breytt um árangur meðferðar eða komið í veg fyrir fyrirburafæðingu. Styðst það við þau læknisfræðilegu álit, sem fyrir liggja í málinu. Veikindi og fötlun C verður rakin til fyrirburafæðingar hans og þeirra veikinda sem fylgdu í kjölfarið en ekki vegna tafar sem varð á greiningu meðgöngueitrunar móður. Að þessu virtu verður ekki talið að orsakir veikinda stefnanda sé unnt að rekja til ófullnægjandi læknisskoðunar fæðingalæknisins á (...)  eða annarrar háttsemi starfsmanna NN. Verður því fallist á með stefnda að skilyrði bótareglna um orsakatengsl og sennilega afleiðingu séu ekki fyrir hendi. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu."

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Berglindi Steffensen og Ragnheiði Bjarnadóttur, sérfræðingum í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×