Innlent

Fjórir menn handteknir í tengslum við húsleit

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari
Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari
Fjórir menn voru handteknir í tengslum við rannsókn sérstaks saksóknara á lánveitingum VÍS í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru þetta Lýður Guðmundsson, sem var aðaleigandi Exista, Erlendur Hjaltason, annar forstjóra Exista, og Guðmundur Örn Gunnarsson sem hefur verið forstjóri VÍS. Hann lét af starfi nýlega. Húsleit var jafnframt gerð hjá VÍS og Existu í dag vegna málsins.

Samkvæmt tilkynningu frá sérstökum saksóknara hófust yfirheyrslur í morgun og er þess að vænta að þær standi fram á kvöld.

Í tilkynningu frá sérstökum saksóknara segir meðal annars að til rannsóknar sé fjöldi lánveitinga til ýmissa félaga og aðila á árunum 2007-2009. Grunur sé um meint brot á auðgunarbrotakafla hegningarlaga í tengslum við ráðstafanir á fjármunum vátryggingafélagsins og brot á lögum um vátryggingastarfsemi. Um sé að tefla verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda tilvika. Málinu var vísað til embættis sérstaks saksóknara með kæru frá Fjármálaeftirlitinu.

Embætti sérstaks saksóknara gefur ekki frekari upplýsingar um rannsóknina að svo stöddu.

------------------------

Breyting klukkan 21:23

Í þessari frétt í dag var fullyrt að Sigurður Valtýsson hefði verið handtekinn. Það er ekki rétt og er Sigurður beðinn afsökunar á þeirri missögn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×