Erlent

Börnin sungu saman á meðan skotbardagi geisaði úti

Mörtu Rivera Alanis, 33 ára gömlum mexíkóskum leikskólakennara, tókst að viðhalda ótrúlegri ró meðal nemenda sinna þegar skotbardagi hófst fyrir utan kennslustofuna hennar í Monterrey í Mexíkó síðastliðinn föstudag. Hún örvænti ekki heldur fékk hún öll börnin til að syngja saman og náði auk þess að festa atvikið á myndband með farsímanum sínum.

Í meðfylgjandi myndbroti má heyra kennslukonuna biðja börnin fallega að liggja á gólfinu, fullvissa þau um að engin ástæða sé til að óttast, og spyrja svo börnin hvort þau langi ekki að syngja lag saman. Þá leiðir hún börnin í söng úr sjónvarpsþáttunum um bleiku risaeðluna hann Barney. Innan skamms eru börnin farin að brosa og teygja tungurnar upp í loftið til að grípa súkkulaðirigninguna sem fjallað er um í laginu en allan tímann má heyra byssuskotin fljúga fyrir utan kennslustofuna. Fimm létu lífið í skotbardaganum.

Monterrey, sem var einu sinni talin ein öruggasta borgin í Mexíkó, hefur undanfarin ár gengið í gegnum miklar umbreytingar en eiturlyfjasmyglarar hafa tekið að hreiðra um sig í fínni hverfum borgarinar. Frá því Felipe Calderón, forseti Mexíkó, tók við embættinu árið 2006 og lýsti yfir stríði á hendur eiturlyfjahringa Mexíkó hafa yfir 30.000 manns látið lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×