Erlent

Kepp­endur Ísrael fengu hótanir um endur­tekningu á 1972

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fregnir hafa borist af sniðgöngu annarra þátttakenda gagnvart keppendum Ísrael.
Fregnir hafa borist af sniðgöngu annarra þátttakenda gagnvart keppendum Ísrael. AP/Eugene Hoshiko

Fyrrverandi yfirmaður öryggismála Ólympíusveitar Ísrael hjá öryggisstofnuninni Shin Bet, segir að auka ætti öryggi keppenda landsins á Ólympíuleikunum í París í kjölfar árásar Hezbollah á þorp í Gólan-hæðum um helgina og aukinnar spennu á svæðinu.

Ummælin lét Shmulik Philosof falla í samtali við New York Times en Ísrael er eitt fárra ríkja sem lætur sér ekki nægja öryggisgæslu gestgjafans á Ólympíuleikunum og er einnig með eigin gæslu.

Gæsla þátttakenda Ísrael á Ólympíuleikunum var aukin verulega í kjölfar þess að ellefu íþróttamenn og þjálfarar voru myrtir á leikunum í Munchen árið 1972. Samkvæmt New York Times bárust íþróttamönnum landsins tölvupóstar í aðdraganda leikanna í París, þar sem því var hótað að leikurinn yrði endurtekinn nú.

Leiða má líkur að því að hótanirnar og árás Hamas á Ísrael 7. október hafi orðið til þess að öryggisgæslan hafi verið aukin enn frekar.

New York Times hefur eftir heimildarmönnum að undirbúningur Shin Bet fyrir Ólympíuleikana í París hafi staðið yfir í um tvö ár og falið í sér fjölda funda með öryggisyfirvöldum í Frakklandi. Þá greindi menningar- og íþróttamálaráðherrann Miki Zohar frá því í júní að fjárheimildin vegna öryggis íþróttamannanna hefði verið aukin um 50 prósent.

Ísraelsku keppendurnir hafa sagt frá því hvernig þeir forðast að sýna það þegar þeir ferðast að þeir séu frá Ísrael.

„Þetta hefur alltaf verið svona,“ sagði maraþonhlauparinn Maor Tiyouri. „Þetta er erfitt en þetta er bara veruleikinn og ef það þýðir að ég er öruggari þá er þetta bara það sem ég þarf að gera,“ sagði hún um feluleikinn.

Íþróttafólkinu hefur verið ráðlagt frá því að taka þátt í umræðum eða mótmælum og þá eru þeir hvattir til að tjá sig ekki um stríðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×