Erlent

Enn syrtir í álinn hjá Silvio

MYND/AP
Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu á ekki sjö dagana sæla nú um stundir og í gær tapaði flokkur hans kosningum í heimaborginni Milanó. Berlusconi hafði beitt sér persónulega í borgarstjórnarkosningunum í Mílanó en allt kom fyrir ekki og nú hafa vinstrisinnar náð völdum í borginni í fyrsta sinn í tvo áratugi.

Í suðurhluta landsins tapaði flokkur forsætisráðherrans einnig völdunum í Napólí. Og nú hafa saksóknarar í Róm höfðað enn eitt málið gegn Berlusconi. Hinn mikli stuðningur Berlusconis í kosningunum hafði semsagt lítið að segja og sennilega skemmt fyrir þar sem álit Ítala á hinum litríka leiðtoga hefur sjaldan verið minna.

Stuðningurinn hefur meira að segja aukið á vandræðin hjá forsætisráðherranum því nú er hann sakaður um að hafa gerst brotlegur við kosningalög í aðdraganda kosninganna. Saksóknarar segja að víðtæk auglýsingaherferð sem hann skipulagði og gekk á öllum sjónvarpstöðvum á Ítalíu hafi verið klárt brot á lögum.

Varla er á það bætandi fyrir Berlusconi því áður en þetta mál kom upp var hann flæktur í fjögur dómsmál sem meðal annars snúast um að hann hafi átt samræði með stúlku undir lögaldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×