Innlent

Tímaspursmál hvenær bannið tekur gildi

Siv Friðleifsdóttir segir tímaspursmál hvenær bannið tekur gildi. Mynd/ Anton.
Siv Friðleifsdóttir segir tímaspursmál hvenær bannið tekur gildi. Mynd/ Anton.
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segist sannfærð um að almennt bann við sölu tóbaks, á öllum sölustöðum nema apótekum, verði að veruleika. Það sé aðeins tímaspursmál hvenær það taki gildi.

Siv Friðleifsdóttir lagði í dag fram þingsályktunartillögu sem mælir fyrir tíu ára aðgerðaráætlun sem miðar því að tóbakssala verði bundin við apótek og að tóbak verði gert lyfseðilsskylt. Áætlunin miði að því að minnka nýliðun, án þess þó að íþyngja fullorðnum reykingamönnum en tillagan felur það meðal annars í sér að tóbaksverð hækki fyrst um sinn en þegar tóbak verði lyfseðilsskylt muni verðið lækka aftur og enda nálægt kostnaðarverði.

Siv segir samfélagið vera að vakna upp fyrir þörfinni á aðgerðum gegn reykingum. Ávallt komi upp ásakanir um forræðishyggju þegar skref séu tekin í tóbaksvörnum og bendir hún í því samhengi á bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum sem tekið var upp árið 2007 en þrátt fyrir mikið mótlæti á sínum tíma ríki í dag almennt mikil ánægja með bannið. Hún telur að tillagan muni hljóta stuðning allra þeirra sem hugsi málið ofan í kjölinn.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, er einn af meðflutningsmönnum tillögunnar. Aðspurð segist Álfheiður Ingadóttir einnig hafa mikla trú á aðgerðaráætluninni. Íslendingar séu brautryðjendur í ýmsum málum á sviði tóbaksvarna en hún telur það meðal annars einstakt að tóbak sé ekki lengur sýnilegt í íslenskum matvörubúðum. Hún segist efins um að tillagan verið samþykkt núna í vor, en er sannfærð um að dropinn muni hola steininn. Þau hyggjast halda áfram þar til skynsemin verður fíkninni yfirsterkari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×