Innlent

Þingmenn leggja til að sala tóbaks verði bönnuð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þingmennirnir vilja banna sölu tóbaks. Mynd/ Getty.
Þingmennirnir vilja banna sölu tóbaks. Mynd/ Getty.
Bannað verður að selja tóbak, annarsstaðar en í apótekum, verði þingsályktunartillaga sem liggur fyrir Alþingi samþykkt. Það er Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sem er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að Ísland stefni að því að verða meðal fyrstu landa til að takmarka verulega aðgengi að tóbaki með því að taka það úr almennri sölu. Sölu í matvöruverslunum, söluturnum, á bensínstöðvum, í flugvélum og fríhöfnum verði hætt. Tóbak verði þá einungis selt í apótekum með sérstakt tóbakssöluleyfi. Flutningsmenn tillögunnar vilja þá að sala þess verði háð strangari reglum en nú er enda um ávana- og fíkniefni að ræða og tóbaksreykur er í raun krabbameinsvaldandi eiturefni.

Flutningsmenn vilja svo að eftir tíu ár verði salan í apótekum enn takmörkuð á þann hátt að eftir það yrði hún háð því að „tóbakslyfseðli" sé framvísað. Tóbak yrði þannig aðgengilegt fyrir þá fáu tóbaksneytendur sem ekki geta eða ekki vilja hætta. Skilyrði þess að læknir eða aðrir sérþjálfaðir heilbrigðisstarfsmenn skrifi út tóbakslyfseðil verður að viðkomandi hafi sjúkdómsgreininguna tóbaksfíkn og að ákveðin meðferðarúrræði hafi verið reynd og brugðist. Nikótínlyf og tóbak verða þannig aðgengileg á viðráðanlegu verði fyrir fólk með staðfesta tóbaksfíkn sem ekki getur eða ekki vill hætta.

Auk Sivjar eru það Þuríður Backman, Ásta R. Jóhannesdóttir, Árni Johnsen, Margrét Tryggvadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Þór Saari, Ólína Þorvarðardóttir og Eygló Harðardóttir sem leggja frumvarpið fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×