Fótbolti

Messi: Napoli er sérstakur staður fyrir alla Argentínumenn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Diego Maradona.
Lionel Messi og Diego Maradona. Mynd/AP
Napoli er komið í Meistaradeildina í fyrsta sinn eftir að liðið náði 3. sætinu í ítölsku A-deildinni í vetur. Það má segja að félagið sé nú komið í hóp þeirra bestu í Evrópu síðan að Diego Armando Maradona lék með félaginu á níunda áratugnum.

Lionel Messi, argentínski snillingurinn hjá Evrópumeisturum Barcelona, segist nú vonast til þess að Barcelona verði með Napoli í riðli í Meistaradeildinni á næsta tímabili en þar gæti hann líka mætt góðum vini sínum og landa, Ezequiel Lavezzi.

„Napoli og þá sérstaklega San Paolo leikvangurinn er sérstakur staður fyrir alla Argentínumenn. Það er alltaf gaman að fá að mæta félagið með svona mikla sögu," sagði Lionel Messi í viðtali við ítalska blaðið Il Mattino.

Maradona lék í sjö ár með Napoli-liðinu frá 1984 til 1991 en hann varð tvisvar ítalskur meistari (1987, 1990), einu sinni Evrópumeistari (1989) og einu sinni bikarmeistari (1987). Maradona skoraði alls 115 mörk í 258 leikjum með Napoli í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×