Innlent

Vil ekki kalla það málþóf - en við munum tala í þessu máli

Höskuldur Kári Schram skrifar
Engin sátt liggur fyrir á Alþingi um afgreiðslu á minna kvótafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Sjálfstæðismenn vilja að ríkisstjórnin dragi það til baka en stjórnarliðar segja að það komi ekki til greina

Deilur um minna kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar hafa valdið því að ekki hefur náðst sátt um þingstörf en samkvæmt dagskrá átti fresta þingfundi í dag fram á haust. Ríkisstjórnin vill hins vegar klára málið fyrir þinghlé en sjálfstæðis- og framsóknarmenn vilja að frumvarpið verði dregið til baka.

Fulltrúi samfylkingarinnar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd segir að ekki komi til greina að draga málið til baka.

Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að sjálfstæðismenn hafi viljað málið burt. „Við erum búin teygja okkur mjög langt og bjóða fram sátt í málinu og halda fundi alveg frá því á miðvikudag í síðustu viku. En hér er á ferðinni grímulaus hagsmunabarátta Sjálfstæðisflokksins fyir kvótakerfinu, það er ekkert flóknara heldur en það Þeir hafa ekki viljað hagga sér í málinu á nokkurn hátt sem sýnir sig best í því að þeir vilja bara málið burt," segir Róbert.

Sjálfstæðismenn telja að frumvarpið sé gallað og standist ekki stjórnarskrá.

Samfylkingin, hún er tilbúin í sumarþing til að klára þetta mál? „Við buðum okkur fram til þess að breyta þessu kerfi. Við vorum kosin til þess að gera það og við gerum það sem þarf að gera til þess að svo megi verða," segir Róbert.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að markmið Sjálfstæðisflokksins sé að koma í veg fyrir að afgreiðslu frumvarpsins. „Við erum óhress með þetta frumvarp og teljum að þjóðinni sé betur borgið án þess," segir Einar.

Er þetta spurning um að þið munið beita málþófi? „Ég vil ekki kalla það málþóf en við munum auðvitað tala í þessu máli," segir Einar að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×