Innlent

Foringi Black Pistons: Ekki kallaður nunna - þeir myndu aldrei þora því

Ríkharð þegar hann mætti í aðalmeðferð dómsmáls vegna íkveikju.
Ríkharð þegar hann mætti í aðalmeðferð dómsmáls vegna íkveikju.
„Það hljóp einn náungi að mér og sló mig fyrirvaralaust," segir Ríkharð Júlíus Ríkharðsson, um átök sem urðu á milli hans og nítján ára pilts á Litla-Hrauni fyrir skömmu. Ríkharð, sem er foringi Black Pistons hér á landi, sem nú heitir Outlaws prospect, segir fyrri fréttaflutning Vísi ekki réttan um málið.

Þá var sagt frá því að pilturinn hefði slegið Ríkharð í andlitið í fangaklefanum hans eftir að Ríkharð á að hafa reynt að taka rafmagnstæki af honum ófrjálsri hendi. Ríkharð segir piltinn hafa verið undir áhrifum fíkniefna þegar hann sló hann, og árásin hefði átt sér stað fyrir framan verslunina Rimlakjör, sem rekin er í fangelsinu.

„Hann er búinn að biðjast afsökunar á þessu," segir Ríkharð sem segist ekki hafa ætlað að stela sjónvarpi piltsins eins og hann var sakaður um. Þegar Ríkharð lýsir atvikinu talar hann um að pilturinn hefði nálgast hann mjög skyndilega og „sökker pönsað," hann eins og Ríkharð orðar það sjálfur.

Þegar Ríkharð er spurður hvort samfangar hans hafi uppnefnt hann „nunnuna" svarar Ríkharð: „Það er bara kjaftæði. Þeir myndu aldrei fokking þora því."

Ríkharð afplánar nú eftirstöðvar dóms sem hann hlaut á síðasta ári fyrir íkveikju. Síðast var hann hinsvegar handtekinn fyrir að beita annan pilt hrottalegu ofbeldi í margar klukkustundir ásamt félaga sínum.

Þessum ásökunum neitar Ríkharð í samtali við Vísi og segir lögreglu hunsa vitnisburð sinn. Sjálfur segist hann hafa verið einn heima þetta kvöld.

Vélhjólagengið Black Pistons hlaut nýverið stöðu Outlaws prospect. Sú staða er undanfari þess að verða fullgildur meðlimur í vélhjólaklúbbnum Outlaws, sem er starfræktur víða um heim, líkt og Hells Angels.

Það hefur tekið Ríkharð og félaga tvö ár að komast þangað sem þeir eru komnir nú. Sjálfur ætlaði hann til Ítalíu í vor á nokkurskonar foringjafund aðildarfélaga Outlaws. Svo var hann handtekinn og þær áætlanir breyttust. Félagar Ríkharðs fóru þó á fundinn að hans sögn.

Ríkharð segir öfl vinna gegn sér og klúbbnum vegna þess að allt stefni í að þeir verði fullgildir meðlimir Outlaws áður en árið er liðið.

„Það er bara einhver öfundsýki í gangi. Það er einhver að reyna að skemma mannorðið mitt," segir Ríkharð að lokum.


Tengdar fréttir

Foringi Black Pistons í átökum á Litla-Hrauni

Foringi Black Pistons, Ríkharð Júlíus Ríkharðsson, virðist ekki eiga sjö dagana sæla inni á Litla-Hrauni en hann lenti í átökum við tvo pilta á tvítugsaldrinum fyrir skömmu. Samkvæmt heimildum Vísis á Ríkharð að hafa verið skallaður í andlitið af nítján ára samfanga sínum eftir að hann á að hafa ruðst inn í klefa piltsins með það að markmiði að taka rafmagnstæki af honum í leyfisleysi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×