Innlent

Boxerhundar drápu á þriðja tug lamba og kinda

Tveir boxerhundar drápu á þriðja tug lamba og kinda í nágrenni Eyrarbakka. Lögreglunni á Selfossi barst tilkynning um dýrbítana rétt fyrir hádegi í dag.

Lömbin og kindurnar voru á túni bæjarins Þórðarkots. Bændurnir á bænum skutu hundana þegar upp komst um drápin, enda hafa bændur heimild til að skjota dýrbíta.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er staðfest að hundarnir drápu 23 kindur og lömb. Enn eru menn þó að leita á svæðinu sem er heldur víðfemt.

„Þau voru mjög illa leikin, vægast sagt," segir lögreglumaður sem sinnir málinu um hræin.

Hundarnir höfðu strokið frá eigendum sínum en óvíst er hversu lengi þeir voru að drepa sauðféð.

Næstu skref lögreglu eru að yfirheyrahundaeigendurna, en samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru þeir að teknu tilliti til aðstæðna ekki ósáttir við að þeim hafi verið lógað.

„Hundur sem bítur lamb, hann bítur aftur. Þegar þeir finna blóðbragðið vaknar villidýrið í þeim," segir lögreglumaðurinn.

Búast má við að eigendur hundanna þurfi að greiða bændunum bætur vegna sauðfjárins sem þeir drápu, en lamb á fæti kostar um 25 þúsund krónur.

Mögulegt er að aflífa þurfi fleiri lömb og kindur sem eru illa farin eftir árásina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×