Innlent

Jón Gnarr leitar að Reykvíkingi ársins

"Mig langar til að þakka þessu fólki,“ segir Jón Gnarr.
"Mig langar til að þakka þessu fólki,“ segir Jón Gnarr. Mynd/Arnþór Birkisson
Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur leitar nú eftir ábendingum frá borgarbúum um Reykvíking sem verið hefur til fyrirmyndar, en ábendingarnar verða notaðar til að velja Reykvíking ársins. Sá sem hlýtur nafnbótina fær meðal annars laxveiðidag í Elliðaánum með Jóni og frítt í sund.

„Með því að veita árlega slík verðlaun á meðan ég er borgarstjóri hef ég hug á því að efla áhuga Reykvíkinga á því að gera eitthvað fyrir borgina sína og samborgara. Ég veit að það er fjölmargt fólk í Reykjavík sem er til fyrirmyndar, óeigingjarnt fólk sem er alltaf að hugsa um velferð borgarinnar og samborgara sinna. Mig langar til að þakka þessu fólki," segir Jón.

Fram kemur í tilkynningu frá borginni að til greina komi aðeins einstaklingar, sem haia með háttsemi sinni eða atferli, verið til fyrirmyndar á einhvern hátt. Þar segir að slíkur borgari gæti til dæmis verið einhver sem sannanlega haldi borginni hreinni með því að tína upp rusl á víðavangi eða einhver sem hafi með ólaunuðu framlagi sínu, djörfung og dug gert Reykjavíkurborg gott á undanförnum árum og haft jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt.

Ábendingar skal senda ásamt rökstuðningi á netfangið hugmynd@reykjavik.is eða bréflega til skrifstofu borgarstjóra merkt Reykvíkingur ársins fyrir 15. júní 2011. Þriggja manna dómnefnd mun velja Reykvíking ársins úr innsendum tillögum og sá sem hlýtur nafnbótina fær meðal anns laxveiðidag í Elliðaánum með borgarstjóra, árskort í sundlaugar ÍTR, árskort í Fjölskyldu og húsdýragarðinn og Menningarkortið til eins árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×