Innlent

Eagles buðu starfsfólki Nings á tónleikana

Eagles eru sáttir við starfsfólk Nings og buðu þeim á tónleika.
Eagles eru sáttir við starfsfólk Nings og buðu þeim á tónleika.
„Þeir komu hingað í gærkvöldi og fengu sér bland af heilsuréttum og nýjan kjúklingarétt," segir Hilmar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Nings, en rokkgoðin úr Eagles fengu sér að borða á veitingastaðnum á Suðurlandsbraut í gærkvöldi ásamt fylgdarliði. Rokkararnir voru svo ánægðir með matinn að þeir buðu öllu starfsfólki á tónleikana sem verða í Laugardalshöllinni í kvöld.

Hilmar segir að það hafi ekki farið mikið fyrir tónlistarmönnunum þegar þeir sátu að snæðingi.

„Stúlkurnar þekktu varla mennina þegar þeir komu inn. Þær hafa sennilega bara haldið að þarna væru eldri borgara sem töluðu ensku á ferð," segir Hilmar sem bætir við að þessir fornfrægu rokkarar hefðu verið kurteisir með eindæmum.

Fréttablaðið greindi frá því í maí að matarkröfur Eagles fyrir tónleikaferð sína Long Road Out Of Eden eru gríðarlegar. Þar kemur fram að matarkröfurnar eru jafn strangar og þær eru margar. Mikilvægt er að maturinn sé heilsusamlegur þar sem fólk í föruneyti Eagles er að reyna að hugsa um heilsuna.

Öll búningsherbergi verða að vera full af ferskum ávöxtum og grænmeti ásamt nýbökuðu brauði. Mikilvægt er að harðsoðin egg sem verða í boði séu köld, með sprungulausri skurn. Þá verða vínber að vera svo fersk, að þegar þau eru hrist slitna þau ekki úr klasanum.

Svo virðist sem Nings hafi uppfyllt kröfur rokkaranna og gott betur því þeir buðu níu manns, sem voru í vinnunni á Nings í gær, á tónleikana í kvöld. Þá bættu þeir um betur og hafa pantað mat frá staðnum í hádeginu í dag svo þeir fari ekki svangir í gegnum daginn. Þeir sem vilja berja goðin augum verða þó að láta sér kvöldið nægja, því maturinn verður sendur til tónlistarmannanna.

Hilmar segist samgleðjast starfsfólki sínu og segir boðið á tónleikana skemmtilegan vitnisburð um að starfsfólkið sé að standa sig vel í vinnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×