Íslenski boltinn

Stjörnustúlkur aftur á sigurbraut - fyrsti sigur Fylkis

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Stefán
Stjarnan komst upp í annað sætið í Pepsi-deild kvenna eftir 2-1 sigur á KR á gervigrasinu í Garðabæ en Stjörnukonur eru búnar að vinna alla þrjá leiki sína á teppinu í sumar. Valur getur náð öðru sætinu á ný með sigri á Þór/KA á morgun.

Stjarnan varð jafnframt fyrsta liðið til að vinna KR-konur í sumar en Vesturbæjarliðið var með 1 sigur og 2 jafntefli í fyrstu þremur leikjum sínum.

Inga Birna Friðjónsdóttir tryggði Stjörnunni þrjú stig með því að skora sigurmarkið 18 mínútum fyrir leikslok eftir að fyrirliði Stjörnunnar, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, hafði jafnað leikinn eftir klukktíma leik. Berglind Bjarnadóttir kom KR í 0-1 eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik.

Fylkir fagnaði sínum fyrsta sigri í deildinni í sumar þegar liðið vann 3-1 sigur á Aftureldingu á Fylkisvellinum en Fylkir fór upp fyirr Mosfellsstúlkur og upp í 7. sæti með þessum sigri.

María Kristjánsdóttir, Laufey Björnsdóttir og Rúna Sif Stefánsdóttir skoruðu mörk Fylkis en Elín Svavarsdóttir minnkaði muninn í 2-1 í fyrri hálfleik.

Upplýsingar um markaskorara er fengar af vefsíðunni fótbolti.net.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×