Innlent

NATO með æfingu í Helguvík

Hluti af varnaræfingu Atlantshafsbandalagsins, Norður-Víkingi, fór fram í höfninni í Helguvík í dag. Í verkefninu taka þátt um fjögur hundruð og fimmtíu manns frá Bandaríkjunum, Noregi, Danmörku og Íslandi.

Ítalskir hermenn og leyniskyttur lágu í leyni um allt hafnarsvæðið og F-16 orrustuþotur bandaríska flughersins sveimuðu um loftin þegar fréttastofu bar að garði í dag.

Verkefni dagsins var að gera höfnina örugga til þess að norska varðskipið Sortland kæmist að landi.

Kafarar komu sprengju fyrir um borð í litlum báti og honum sökkt. Þá fengu hermenn heimild til þess að sigla út að varðskipinu og gefa því merki um að koma í land. Sjórinn var nokkuð úfinn og því voru allir nokkuð blautir þegar báturinn var hífður upp og gengið var um borð. Varðskipið Sortland sigldi svo hnökralaust inn í höfnina undir vökulu auga dönsku björgunarþyrlunnar sem var til taks ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis. Æfingin gekk þó vel og allir sluppu heilir á húfi frá verkefni dagsins.

Norður-víkingur er ein stærsta varnaræfing Atlantshafsbandalagsins á Íslandi til þessa. Bandaríski flugherinn, ítalski sjóherinn ásamt dönsku og norsku strandgæslunni taka þátt í æfingunni. Fjögur hundruð og fimmtíu manns taka þátt í aðgerðunum en markmið þeirra er að æfa liðs og birgðarflutninga þjóðanna til og frá landinu með áherslur á æfingar í lofti.

Hægt er að sjá lengri útgáfu af æfingunni í Sjónvarpi Vísis hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×