Innlent

Neytendur geta brátt keypt mjólk utan "samráðshringja“

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Íslenskir neytendur geta nú keypt sér jógúrt sem er framleidd utan við það sem Samkeppniseftirlitið kallar samráðshring mjólkuriðnaðarins, en fyrirtækið Vesturmjólk þiggur enga ríkisstyrki.

Vesturmjólk er nýtt framleiðslufyrirtæki í mjólkuriðnaði í eigu þriggja sjálfstæðra kúabænda á Vesturlandi, þeirra Bjarna Bærings Bjarnasonar að Brúarreykjum í Borgarbyggð, Jóhannesar Kristinssonar að Þverholtum í Borgarbyggð og Axels Oddssonar að Kverngrjóti í Dalabyggð. Fyrirtækið framleiðir utan greiðslumarks og þiggur enga ríkisstyrki

Samkeppniseftirlitið sagði í umsögn sinni um um frumvarp sjávarútvegs- um landbúnaðarráðherra frá ágúst í fyrra að mjólkuriðnaðurinn hefði „mörg einkenni samráðshrings, (e. cartel)." Frumvarpið, sem hefði þrengt möguleika til framleiðslu utan mjólkurkvóta, varð aldrei að veruleika. En er hægt að halda uppi samkeppni við þennan iðnað án styrkja? „Við teljum að það sé ekki bein nauðsyn á ríkisstyrkjum í þessum iðnaði ef iðnaðurinn fær bara að vera í friði," segir Bjarni Bærings Bjarnason, framkvæmdastjóri Vesturmjólkur.

Vesturmjólk hefur nú sett á markað jógúrt með þremur bragðtegundum.

Ef frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá síðasta hausti hefði orðið að lögum þá væri þessi jógúrt ekki á boðstólnum, eða hvað? „Nei, rétt. Það átti að lögbinda einokun á íslenska markaðnum í þessari landbúnaðargrein. Og ef þetta frumvarp hefði orðið að lögum þá hefði ekki verið nein samkeppni í landinu," segir Bjarni.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vildi ekki tjá sig um efni fréttarinnar.

Innan skamms hyggst Vesturmjólk setja á markað fituskerta mjólk. Það verður þá eina óríkisstyrkta mjólkin á markaðnum. Eða það sem á enska tungu væri hægt að kalla „cartel free milk" eða mjólk utan samráðshringja, ef mat Samkeppniseftirlitsins er rétt. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×