Innlent

Áfram í gæsluvarðhaldi til að verja aðra gegn árásum

Maðurinn segist vera smitaður af lifrarbólgu C og HIV og hefur hótað því að smita lögreglumennina af þessum ólæknandi sjúkdómum.
Maðurinn segist vera smitaður af lifrarbólgu C og HIV og hefur hótað því að smita lögreglumennina af þessum ólæknandi sjúkdómum.
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni vegna líflátshótana í garð lögreglumanna og læknis. Maðurinn var í síðasta mánuði dæmdur í Héraðsdómi Austurlands fyrir að hóta lögreglumönnunum en ekki er komið að afplánun.

Samkvæmt framburði vitnis sagðist maðurinn ætla að drepa einn lögreglumanninn með sporjárni. Þá segist maðurinn vera smitaður af lifrarbólgu C og HIV og hefur hótað því að smita lögreglumennina af þessum ólæknandi sjúkdómum.

Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum mannsins.

Maðurinn hefur verið í samfelldri brotastarfsemi frá árinu 2000 og margoft farið í fangelsi á síðustu ellefu árum. Síðast fór hann í fangelsi í desember 2010, losnaði úr í maí, en byrjaði svo til strax aftur í alvarlegri brotastarfsemi.

Þann 10. maí var maðurinn dæmdur í 9 mánaða fangelsi fyrir hótanir í garð lögreglumannanna. Áfrýjunarfrestur rann út þann 7. júní en ekki er hægt að láta kærða byrja af afplána dóminn fyrr en ákærufrestur er liðinn og að dómur Hæstaréttar hafi gengið eftir áfrýjun.

Héraðsdómur Austurlands úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald til 22. júní og staðfestir Hæstiréttur þann úrskurð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×