Innlent

Ræddu um fundarstjórn í rúmar 40 mínútur

Guðlaugur Þór var meðal þeirra þingmanna sem tóku þátt í umræðum um fundarstjórn forseta í dag.
Guðlaugur Þór var meðal þeirra þingmanna sem tóku þátt í umræðum um fundarstjórn forseta í dag. Mynd/Stefán Karlsson
Þingmenn ræddu um fundarstjórn forseta Alþingis í meira en 40 mínútur á þingfundi í hádeginu. Margir þeirra töluðu um svokallað minna kvótafrumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og málsferðina í kringum málið. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar sagðist telja að þingmenn þyrftu að reyna að jafna ágreining á fundum en ekki í þingsal því slíkt væri Alþingi ekki til framdráttar.

Stefnt er að þinglokum á næstu dögum en í kvöld fara fram almennar stjórnmálaumræður sem oftast eru nefndar Eldhúsdagsumræður. Hart hefur verið tekist á um forgangsröðun og vinnulagið á Alþingi undanfarna daga. Sjálfstæðis- og framsóknarmenn hafa meðal annars gagnrýnt umrætt kvótafrumvarp harkalega en enginn sátt náðist um afgreiðslu málsins á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar í morgun. Á fundinum var frumvarpið afgreitt út úr nefndinni við litla gleði þingmanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks.

Rugl og drasl

Þuríður Backman, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði að komið væri til móts við sjónarmið stjórnandstöðunnar hvað frumvarpið varðar en að öllum hafi verið ljóst að komið væri af afgreiðslu þess. Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gaf lítið fyrir þau orð. „Eigum við ekki að taka málið upp úr skotgröfunum eins og alltaf er verið að tala um og líta í eigin barm. Þetta mál er dautt, þetta er rugl og þetta er drasl sem ber að henda."

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði frumvarpið handónýtt og að það væri enginn vilji að hálfu forystumanna ríkisstjórnarinnar til að ná sátt um kvótafrumvarpið. Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði málsmeðferðina fyrir neðan allar hellur og til skammar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, tók þátt í umræðunni og sagði mikilvægt að koma skikk á þingstörfin. Þá sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ekki hægt að hafa vinnubrögðin óvandaðri.

Gerði ekki athugsemdir við fundarstjórnina

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG og formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, gaf lítið fyrir gagnrýni þingmanna stjórnarandstöðunnar og sagði að það hefði alltaf legið fyrir að stefnan væri að afgreiða umrætt frumvarp sem lög á yfirstandandi vorþingi. Meirihlutann hefði mætt stjórnarandstöðunni, miklar umræður hefðu farið fram í nefndinni auk þess sem gerðar hefu verið breytingar á frumvarpinu.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagðist ekki gera athugasemdir við fundarstjórn forseta, en sagði hins vegar: „Ég vil koma þeirri beiðni fram við forseta og hæstvirta forsætisnefnd að við þingmenn og fulltrúar þingmanna reynum að jafna ágreining um þingstörfin á fundum okkar en ekki í ræðustól Alþingis. Ég held að það sé hvorki þeim málum sem hér er verið að ræða til framdráttar né Alþingi og okkur sjálfum ef út í það er farið."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×