Innlent

Össur afléttir trúnaði

Mynd/GVA
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, mun aflétta trúnaði af gögnum utanríkisráðuneytisins til utanríkismálanefndar varðandi stuðning Íslands við aðgerðir Nató í Líbíu. Þetta gerði hann í kjölfar áskorunar Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, í utandagskrárumræðu um málið á Alþingi í dag sem Bjarni var málshefjandi að.

Össur sagðist ekki hafa neitt að fela. Stuðningur Íslands við aðgerðir Atlantshafsbandalagsins hafi verið ræddur í ríkisstjórn og á fundi utanríkismálanefndar. Þar hafi komið fram skýr afstaða Vinstri grænna sem væru mótfallnir aðgerðunum og veru Íslands í Nató. Össur sagðist aftur á móti hafa haft fullt umboð til að taka ákvörðun í nafni Íslands þar sem meirihluti hafi verið fyrir því meðal þingmanna að styðja aðgerðirnar.

Þingmenn úr öllum flokkum tóku þátt í umræðunum. Fram kom í máli Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Hreyfingarinnar, að hún teldi að efnt hefði verið til umræðunnar til að koma pólitísku höggi á VG. Umræðan væri undarleg. Árni Þór Sigurðsson og Guðríður Lilja Grétarsdóttir, þingmenn VG, tóku þátt í umræðunni.

„Til hamingju VG, vel gert,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Þá sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, að verið væri að varpa sprengjum í Líbíu og af þeim sökum væri afstaða Vinstri grænna hlægileg. Ljóst væri að Ögmundur Jónsson sem mikið hafi talað um frið færi í raun og veru ekki friðarins maður. Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, talaði í þessu samhengi um furðulegan leikaraskap af hálfu VG. Ekki væri við utanríkisráðherra að sakast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×