Viðskipti erlent

Verð á hrávörum og matvælum helst hátt út árið

Ekkert lát er á verðhækkunum á hrávörum og matvælum í heiminum og reikna sérfræðingar með að sú þróun haldi áfram út þetta ár.

Það er einkum mikill hagvöxtur í Kína sem keyrir áfram hækkanir á hrávörum en reiknað er með að hagvöxturinn þar aukist um 9,5% á seinni helming ársins. Samkvæmt nýrri spá frá bankasamsteypunni ANZ í Ástralíu mun hrávöruverð hækka að meðaltali um 30% það sem eftir er ársins. Hækkanir verða einkum miklar á silfri, korni, kopar og bómull.

ANZ telur að verð á silfri muni hækka um 75% í ár miðað við síðasta ár og að verð á korni muni hækka um 61% milli ára svo dæmi séu tekin. Bómull muni hækka um 59% milli ára.

Samkvæmt nýrri skýrslu frá Matvæla og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna mun matvælaverð haldast áfram hátt í heiminum út þetta ár. Matvælavísitala stofnunarinnar hefur haldist mjög há frá síðustu áramótum. Í maí s.l. hafði hún hækkað um 37% milli ára en vísitalan mælir heimsmarkaðsverð á algengustu matvælum heimsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×