Innlent

Rúmlega fjögur hundruð mættu í Hörpuna

Rúmlega fjögurhundruð manns mættu á stuðningssamkomu Geirs H. Haarde í Hörpu í dag. Þar voru samankomnir samherjar jafnt sem pólitískir andstæðingar.

Það voru stuðningsmenn Geirs sem boðuðu til samkomunar sem fram fór í Norðurljósasalnum í Hörpu nú rétt fyrir fréttir. Geir hélt þar stutt ávarp þar sem hann fór yfir sögu málsins og var honum vel fagnað.

Á fundinum mátti sjá mörg þekkt andlit úr stjórnmálalífi landsins síðustu árin. Jafnt þingmenn og þungvigtarfólk innan Sjálfstæðisflokksins sem og pólitíska andstæðinga.

Meðal annars þingflokksformann Samfylkingarinnar, fyrrum ráðherra flokksins og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Geirs.

Að lokinni ræðu Geirs tók Kristrún Heimisdóttur fyrrum aðstoðarkona Ingibjargar til máls. Henni var vel fagnað og höfðu einhverjir á orði að þessi stuðningur kæmi úr óvæntri átt.

En hversvegna ákvað hún að halda stuðningsræðu fyrir fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins?

„Ég talaði hér sem Íslendingur, hér voru líka formaður þingflokks Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra. Í mínum huga snýst þetta um réttsýni og heiðarleika og að verja réttarkerfi Íslands. Svona aðför eins og í þessu máli er miklu víðtækari en bara einkamál Geirs Haarde, heldur varðar þetta okkur öll."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×