Innlent

Leigjendur íbúðarhúsnæðis njóta liðsinnis Neytendasamtakanna

Samkvæmt samningnum mun þjónustan felast í því að Neytendasamtökin veiti leigjendum íbúðarhúsnæðis upplýsingar um rétt sinn og skyldur samkvæmt húsaleigulögum.
Samkvæmt samningnum mun þjónustan felast í því að Neytendasamtökin veiti leigjendum íbúðarhúsnæðis upplýsingar um rétt sinn og skyldur samkvæmt húsaleigulögum.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra undirritaði í dag þjónustusamning við Neytendasamtökin um leiðbeiningarþjónustu við leigjendur. Frá því að Leigjendasamtökin hættu starfsemi sinni hafa Neytendasamtökin í vaxandi mæli sinnt aðstoð við leigjendur og svarað fyrirspurnum um leigumál eftir bestu getu.

Þetta kemur fram í frétt á vef Neytendasamtakanna.

 

Samkvæmt samningnum mun þjónustan felast í því að Neytendasamtökin veiti leigjendum íbúðarhúsnæðis upplýsingar um rétt sinn og skyldur samkvæmt húsaleigulögum. Gert er ráð fyrir að samtökin byggi upp upplýsingavef fyrir leigjendur á heimasíðu sinni auk þess sem þau muni veita leigjendum viðtal í gegnum síma eða á skrifstofu sinni. Jafnframt muni leigjendur eiga kost á lögfræðilegri ráðgjöf að því er varðar rétt leigjenda og skyldur. Þá er í samningnum mælt fyrir um að Neytendasamtökin taki að sér milligöngu við úrlausn ágreinings milli leigjenda og leigusala ásamt því að aðstoða leigjendur við að leggja ágreining fyrir kærunefnd húsamála ef þörf krefur.

 

Með samkomulagi velferðarráðuneytisins og Neytendasamtakanna mun þjónusta við leigjendur eflast til muna. Þjónustusamningurinn sem er liður í stefnumótun ráðuneytisins um að efla leigumarkað verður til mikilla hagsbóta fyrir leigjendur auk þess sem samstarf við Neytendasamtökin mun auðvelda ráðuneytinu að liðsinna leigjendum og styrkja stöðu þeirra. Á vegum velferðarráðuneytisins er nú unnið að endurskoðun húsaleigulaga.

 

Leigjendur geta hringt í síma 5451200 og fengið leiðbeiningar og aðstoð á  mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum kl. 12:30 - 14:00.

Einnig geta þeir sent fyrirspurn í tölvupósti á netfangið ns@ns.is.

Þá er skrifstofa samtakanna opin kl. 9:00-15:00 alla virka daga að Hverfisgötu 105, Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×