Innlent

Vilja ekki samþykkja fiskveiðifrumvarpið

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Mynd/Vilhelm
Stjórnarandstaðan leggst gegn því, að minna fiskveiðifrumvarp sjávarútvegsráðherra verði afgreitt á yfirstandandi þingi og segir enga sem komið hafa á fundi sjávarútvegsnefndar hafa mælt með því að frumvarpið verði að lögum.

Ákveðið var á Alþingi í gær að stærra frumvarp sjávarútvegsráðherra sem felur í sér mestu breytingarnar á stjórnkerfi fiskveiða í landinu, kæmi ekki til annarrar umræðu á þessu þingi. Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, leggur hins vegar áherslu á að minna frumvarpið fái brautargengi áður en þing fer í sumarfrí, en það fjallar meðal annars um auknar strandveiðar og fleira sem þarf að mati ráðherra að taka gildi við upphaf nýs fiskveiðiárs í haust. Stjórnarandstaðan vill ekki að frumvarpið verði afgreitt og segir enga gesti sjávarútvegsnefndar mæla með því.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir að ræða þurfi málið frekar í sjávarútvegsnefnd enda varði það grundvallarbreytingar á helsta atvinnuvegi þjóðarinnar.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, segir miklar athugasemdir hafa verið gerðar við allar greinar frumvarpsins og það sé fáheyrt. Sumir hafi fært rök fyrir því að frumvarpið stangist á við stjórnarskrá og muni leiða til gengislækkunar.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, mun funda með formönnum þingflokka í hádeginu til að ræða afgreiðslu mála fyrir þinghlé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×