Innlent

Þjóðin greiði atkvæði um ESB 1. desember

Mynd/Vilhelm
Vigdís Haukdsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hyggst leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Þetta er þriðja sinn sem hún leggur slíka tillögu fram.

Fram kom í máli Vigdísar á þingfundi í dag að hún vilji að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram 1. desember. Hún beindi jafnframt þeirri ósk sinni til Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar, að tillagan yrði tekin til umfjöllunar í nefndinni sem fyrst.

Í október í fyrra lagði Vigdís fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða kosningunum til stjórnlagaþings sem fram fór í lok nóvember. Sú tillaga var þó gölluð því samkvæmt lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur, sem Alþingi samþykkti síðasta sumar, skulu líða minnst þrír mánuðir frá því Alþingi samþykkir þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu þar til atkvæðagreiðslan fer fram. „Ég var búin að gleyma þessum lögum," sagði Vigdís í samtali við Fréttablaðið 20. október sl. en hún tók sjálf þátt í að samþykkja lögin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×