Innlent

Allir sem greinst hafa með HIV notuðu rítalín frá læknum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Allir þeir sprautufíklar sem greinst hafa HIV jákvæðir á þessu ári sprautuðu sig með rítalíni í æð sem ávísað var af læknum. Yfirlæknir smitsjúkdóma segir að hemja verði dreifingu rítalíns frá læknum í samfélagið strax.

Það sem af er þessu ári hafa ellefu eintaklingar greinst HIV-jákvæðir. Af þessum ellefu eru tíu Íslendingar, sprautufíklar sem sprautuðu sig með rítalíni í æð. Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdóma hjá Landspítalanum, hefur miklar áhyggjur af þessari þróun.

Allir á læknadópi


Í bréfi sem hann sendi landlæknisembættinu hinn 13. maí síðastliðinn og fréttastofa hefur undir höndum, segir hann að í samtölum við fíkla sem hafi greinst á þessu ári komi í ljós að allir hafi þeir neytt rítalíns sem var ávísað af læknum. Már segir að ömurlegt sé til þess að vita að allt það rítalín sem neytt sé á götum borgarinnar sé ávísað af læknum. Fíklar hafi upplýst að vanalegt sé að fenginn sé lyfjaskammtur frá lækni, hluti hans notaður til eigin nota en bróðurpartur seldur á götunni í gegnum millilið.

Frá því að Már sendi bréfið hafa fjórir sprautufíklar greinst HIV-jákvæðir til viðbótar. Þeir eru því orðnir alls tíu á þessu ári, eins og áður segir. Þeir notuðu allir rítalín sem ávísað var læknum. Eins og fréttastofa greindi frá í gær eru fjórir til viðbótar, sem að öllum líkindum eru smitaðir en þeir sprautuðu sig með tveimur fíklum sem greindust HIV-jákvæðir í síðustu viku. Nöfn þeirra eru óþekkt og smitsjúkdómadeild reynir með öllum mögulegum leiðum að hafa upp á þeim til að fá þá í prufu svo þeir óafvitandi smiti ekki aðra. Hefur hún áður notið fulltingis lögreglu í aðgerðum af þessu tagi.

„Þrátt fyrir þessa frétt sem var í blöðunum í gær, þá er ástandið annað. Fíklarnir segja okkur að þeir séu að selja rítalínið. Þeir fá sig metna sem ofvirka með athyglisbrest og fá svo ávísað á sig lyfinu. Þeir nota sumt sjálfir og annað selja þeir," segir Már í samtali við fréttastofuna.

Már segir í bréfinu til landlæknis að HIV-smit meðal fíkla sé alvarleg aðsteðjandi samfélagsleg ógn. Forvarnir gegn því að ungt fólk leiðist í fíkniefnaneyslu og virkar athafnir gegn aðgengi að fíkniefnum þurfi að efla stórlega.

Í ljósi þess að allir sem séu að smitast af HIV séu að nota rítalín ávísað af læknum segir Már í bréfi sínu til landlæknis að hemja þurfi dreifingu rítalíns frá læknum í samfélagið strax. „Landlæknir og sóttvarnarlæknir vita um þetta ástand," segir Már. Hann segist ekki hafa fengið nein bein viðbrögð frá landlæknisembættinu vegna bréfsins, en í bréfinu hafi heldur ekki verið óskað eftir svari heldur hafi tilgangur þess verið að upplýsa embættið um hversu alvarlegt ástandið væri orðið. thorbjorn@stod2.is


Tengdar fréttir

HIV smitaðra sprautufíkla leitað

Fjórir HIV smitaðir fíklar ganga lausir og gætu smitað aðra finnist þeir ekki í tæka tíð. Yfirlæknir smitsjúkdómadeildar segir algengt að spítalinn þurfi aðstoð lögreglu til að hafa upp á HIV smituðum fíklum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×